Félagið Lindarhvoll ehf. hefur verið stofnað

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur, á grundvelli breytinga sem Alþingi gerði í mars sl. á lögum um Seðlabanka Íslands, sett á stofn félagið Lindarhvol ehf. og skipað því stjórn.

Í stjórnina hafa verið skipuð samkvæmt ákvörðun ráðherra Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti og staðgengill ráðuneytisstjóra, Haukur C. Benediktsson, forstöðumaður Eignasafns Seðlabanka Íslands, og Ása Ólafsdóttir, lögfræðingur. Varamenn eru Esther Finnbogadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Sigurbjörn Einarsson, viðskiptafræðingur.

Félagið, sem er að fullu í eigu ríkissjóðs, hefur það hlutverk að annast umsýslu með og fullnusta þær eignir sem lagðar eru til ríkissjóðs sem hluti af svokölluðu stöðugleikaframlagi fjármálafyrirtækja, þ.e. aðrar en eignarhluti í Íslandsbanka sem færast til Bankasýslu ríkisins.

Segir í lögunum að stjórnarmenn skuli hafa víðtæka og haldgóða þekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum og þeim er félaginu er ætlað að sinna. Jafnframt segir í lögunum að við umsýslu, fullnustu og sölu verðmæta skv. 2. málsl. 1. mgr. skuli félagið leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni, sbr. meginreglur sem nýlega hafa verið lögfestar í lögum um opinber fjármál.

Félagið hefur verið skráð í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Sjá má stofnskrá, stofnfundargerð og samþykktir félagsins dags. 15. apríl sl. undir stofnskjöl og starfshættir.