Lyfja hf. – Opið söluferli

Á grundvelli reglna Lindarhvols ehf. um sölu stöðugleikaeigna, þar sem segir að sala og ráðstöfun skuli eiga sér stað að undangengnu opnu söluferli og gætt sé gagnsæis og jafnræðis bjóðenda, hefur fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf., fyrir hönd Lindarhvols ehf., auglýst Lyfju hf. til sölu. Í hinu opna söluferli verður lögð áhersla á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni en með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignina, að undangengnu opnu söluferli.

Frá og með fimmtudeginum 9. nóvember 2017 geta áhugasamir fjárfestar, sem undirrita trúnaðaryfirlýsingu og skila umbeðnum upplýsingum, fengið afhent ítarleg sölugögn um félagið.

Áhugasömum bjóðendum er boðið að skila inn óskuldbindandi tilboði fyrir kl. 16 föstudaginn 15. desember 2017. Þeim sem eiga hagstæðustu tilboðin verður boðin áframhaldandi þátttaka í ferlinu og munu þeir fá aðgang að rafrænu gagnaherbergi með ítarlegri gögnum, kynningu á félaginu frá stjórnendum Lyfju hf.  og gefast kostur á að framkvæma áreiðanleikakönnun á félaginu.

Nánari upplýsingar um hið opna söluferli á Lyfju hf. og helstu skilmálum þess má sjá hér: https://www.kvika.is/um-kviku/frettir/lyfja-hf-opid-soluferli