Vegna vinnuskjals setts ríkisendurskoðanda

Þann 8. mars sl. kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úr um að tiltekin skjöl frá Magna lögmönnum frá 2021, þar sem fjallað er um vinnuskjal setts ríkisendurskoðanda, væru undirorpin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum. Skjölin eru hér.

Að gefnu tilefni vil Lindarhvoll ehf. upplýsa að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur margsinnis kveðið á um að umrætt vinnuskjal sé háð þagnarskyldu samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga og þeim sem hafi það undir höndum sé óheimilt að veita aðgang að því, sjá úrskurði nefndarinnar nr. 826/2019, 827/2019, 967/2021, 978/2021 og 1041/2021. Ríkisendurskoðun hefur einnig birt sjónarmið stofnunarinnar varðandi þagnarskylduna.

Rökin fyrir því að vinnuskjöl Ríkisendurskoðunar eru undirorpin þagnarskyldu eru reifuð í fyrrnefndum úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Eftirfarandi eru m.a. forsendur nefndarinnar í úrskurði nr. 967/2021:

Í 14. gr. laganna er lögð sú skylda á ríkisendurskoðanda að senda þeim sem sætir athugun eða eftirliti drög að skýrslum eða greinargerðum til umsagnar. Hvað aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun varðar kemur fram í 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna að skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hefur útbúið og eru hluti af máli sem hann hyggst kynna Alþingi geti fyrst orðið aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent. Frá þessari reglu er undantekning í 2. málsl. sömu málsgreinar þar sem fram kemur að drög að slíkum gögnum sem send hafi verið aðilum til kynningar eða umsagnar séu ekki aðgengileg. Þá hefur ríkisendurskoðandi á grundvelli 3. málsl. málsgreinarinnar heimildir til að ákveða að gögn sem hafa verið send stjórnvöldum við undirbúning einstakra athugana og meðan á þeim stendur verði ekki aðgengileg.

Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess sem síðar varð að lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, kemur m.a. fram að ófullgerð gögn sem send hafi verið aðila til umsagnar séu í raun vinnugögn sem glati þeirri stöðu þegar þau hafi verið send öðrum, en geti mögulega leitt til þess að röng eða beinlínis villandi umræða fari af stað áður en ríkisendurskoðandi hefur lokið athugun sinni. Slíkt geti valdið óþarfa fyrirhöfn og kostnaði. Mikilvægt sé að ríkisendurskoðandi fái nauðsynlegt ráðrúm til þess að vinna að athugunum sínum og að opinberum hagsmunum verði ekki raskað ef upplýsingar verði t.d. gerðar aðgengilegar á rannsóknarstigi. Að lokinni athugun ríkisendurskoðanda reyni á aðgangsrétt skv. 2. mgr. en þar komi fram að sé óskað aðgangs að gögnum sem hafa orðið til í samskiptum ríkisendurskoðanda og eftirlitsskylds aðila fari um aðgang að þeim hjá Ríkisendurskoðun eftir ákvæðum upplýsingalaga eða ákvæðum laga um upplýsingarétt um umhverfismál eftir atvikum.

Ákvæði 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga ber heitið: Aðgangur að gögnum hjá Ríkisendurskoðun. Þegar 3. mgr. ákvæðisins er skoðuð verður að draga þá ályktun að málsgreinin taki fremur til þeirra gagna sem þar falla undir en þess aðila sem hefur þau gögn í fórum sínum, þ.e. ákvæðið taki til gagnsins sjálfs án tillits til þess hvar gagnið er að finna, svo fremi að ríkisendurskoðandi hafi afhent gagnið öðrum til kynningar eða umsagnar á grundvelli lagaskyldu. Önnur túlkun á ákvæðinu yrði til þess að um leið og ríkisendurskoðandi sendi skjöl á grundvelli lagaskyldu til aðila myndu þau missa stöðu sína sem vinnuskjöl. Með því næðist ekki markmið ákvæðisins sem áður hefur verið lýst. Þá verður einnig dregin sú ályktun af orðalagi ákvæðisins að það nái til slíkra gagna jafnvel þótt lokaeintak greinargerðar í tilefni af athugun ríkisendurskoðanda hafi verið afhent Alþingi og birt opinberlega. Í því sambandi skal tekið fram að slík drög þurfa eðli málsins samkvæmt ekki að fela í sér endanlega útgáfu greinargerðarinnar.

Í niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði nr. 1041/2021 kemur fram að:

Röksemdir kæranda í máli þessu lúta að því að þann 27. júlí 2018 hafi settur ríkisendurskoðandi skilað niðurstöðum sínum um starfsemi Lindarhvols ehf. til fjölmargra aðila. Um lokaskil hafi verið að ræða sem settur ríkisendurskoðandi hafi ætlast til að birt yrðu opinberlega. Ekki hafi verið óskað eftir andmælum eða athugasemdum og skjalið hvergi merkt sem vinnuskjal.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skoðað hið umbeðna gagn með hliðsjón af framangreindu. Skemmst er frá því að segja að skoðun úrskurðarnefndarinnar rennir ekki stoðum undir þennan skilning kæranda. Þvert á móti er skýrlega tilgreint í skjalinu, sem er dagsett sama dag og röksemdir kæranda byggja á, að um sé að ræða stöðu verkefnisins á tilteknum tímapunkti, verkefninu sé ólokið og að skortur á upplýsingum setji mark sitt á framsetningu niðurstaðna. Sú staðreynd að settur ríkisendurskoðandi óskaði ekki sérstaklega eftir andmælum eða athugasemdum í fylgibréfi með skjalinu getur ekki breytt þessari niðurstöðu, enda var um að ræða verklok af hans hálfu og ósk um lausn frá setningu sinni. Það kom í hlut nýs ríkisendurskoðanda að afla athugasemda frá aðilum við frekari meðferð málsins.

Af framangreindu leiðir að kærandi hefur ekki hnekkt fyrri niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um hið umbeðna skjal að það hafi verið sent fjármála- og efnahagsráðuneytinu í drögum þegar athugun málsins var ólokið. Það er því undirorpið sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna.

Í niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði nr. 978/2021 kemur fram að:

Greinargerðin sem hér um ræðir var send Lindarhvoli ehf. á grundvelli lagaskyldu. Sama á við um afhendingu greinargerðarinnar til Lindarhvols ehf. Þá liggur fyrir að þegar hún var send Lindarhvoli ehf. var hún í drögum og athugun málsins ekki lokið. Af þeim sökum er greinargerðin undirorpin sérstakri þagnarskyldu 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Á það við jafnvel þótt lokaeintak hennar hafi nú verið afhent Alþingi og birt opinberlega.

Í niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði nr. 967/2021 kemur fram að:

Eins og fram kom í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 27. nóvember 2019 í máli nr. 827/2019 var greinargerðin sem hér um ræðir send ráðuneytinu á grundvelli lagaskyldu. Þá liggur fyrir að þegar hún var send ráðuneytinu var hún í drögum og athugun málsins ekki lokið. Af þeim sökum er greinargerðin undirorpin sérstakri þagnarskyldu 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Á það við jafnvel þótt lokaeintak hennar hafi nú verið afhent Alþingi og birt opinberlega. […]

Í niðurstöðum nefndarinnar í úrskurðum nr. 827/2019 og 826/2019 kemur fram að:

Greinargerðin sem hér um ræðir var send ráðuneytinu á grundvelli lagaskyldu og eins og fram hefur komið var hún í drögum og athugun málsins ekki lokið. Samkvæmt framangreindu er greinargerðin undirorpin sérstakri þagnarskyldu 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna.