Um okkur

Á grundvelli breytinga sem Alþingi gerði í mars sl. á ákvæðum til bráðabirgða III í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands hefur fjármála- og efnahagsráðherra sett á stofn félagið Lindarhvol ehf. Lindarhvoll ehf. var stofnað þann 15. apríl 2016 og hefur félagið það hlutverk að annast umsýslu, fullnustu og sölu, eftir því sem við á, á eignum ríkissjóðs, mótteknum skv. fyrrgreindum lögum um Seðlabanka Íslands. Lindarhvoll ehf. er að fullu í eigu ríkissjóðs og mun við umsýslu, fullnustu og sölu eignanna leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar. Félagið undirbýr sölu eignanna eða aðra ráðstöfun þeirra, leitar tilboða, metur tilboð, hefur umsjón með samningaviðræðum og annast samningagerð. Sala og ráðstöfun mun eiga sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt er gagnsæis og jafnræðis bjóðenda. Lindarhvoll ehf. hefur þegar tekið til starfa samkvæmt samningi sem félagið gerði við fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, um umsýslu, fullnustu og sölu stöðugleikaframlagseigna. Jafnframt mun félagið starfa á grundvelli fyrirliggjandi samþykkta félagsins og samþykktra starfsreglna stjórnar félagsins, reglna um umsýslu, fullnustu og sölu eigna og siðareglna þess.

Verðmætin, sem slitabú viðskiptabankanna þriggja auk minni slitabúa lögðu fram í tengslum við gerð nauðasamninga, má í meginatriðum flokka í laust fé, framsalseignir, fjársópseignir og framlag vegna viðskiptabanka. Þar á meðal var eignarhlutur í Íslandsbanka og skuldabréf sem Kaupþing gaf út með veði í Arion banka hf. Skuldabréfið verður greitt upp við sölu Arion banka hf. en ríkissjóður fær vaxtatekjur af bréfinu fram að því. Bankasýsla ríkisins mun fara með eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka. Lindarhvoll ehf. mun annast umsýslu, fullnustu og sölu annarra eigna og hafa eftirlit með fjársópseignum.

Meðal þeirra eigna sem fara í umsýslu hjá Lindarhvoli ehf. eru hlutir í eftirtöldum félögum og sjóðum:
ALMC eignarhaldsfélag ehf.
AuÐur I fagfjárfestingasjóður
Bru II Venture Capital Fund
DOHOP
Eimskip hf.
Eyrir Invest hf.
Internet á Íslandi
Klakki ehf.
Lyfja hf.
Nýi Norðurturninn ehf.
Reitir hf.
S Holding ehf.
SAT eignarhaldsfélag hf.
SCM ehf.
Síminn hf.

Þá mun félagið annast umsýslu skráðra skuldabréfa útgefnum af eftirtöldum aðilum:
Arion banki hf.
Ríkissjóður
Hitaveita Suðurnesja
Lánasjóður sveitarfélaga
Íbúðalánasjóður

Loks eru í flokki framsalseigna ýmsar kröfur á einstaklinga og kröfur á 38 félög, sem falla undir ákvæði 1. og 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Áætlað heildarverðmæti þeirra eigna sem fara í umsýslu hjá Lindarhvoli ehf. við stofnun þess nemur um 60 ma.kr. en þá er búið að taka tillit til verðmæta sem falla undir eignirnar, það er laust fé, Íslandsbanka hf. sem Bankasýslan fer með og skuldabréfsins frá Kaupþingi sem áður er getið.