Ráðning ráðgjafa við sölu eigna í umsýslu Lindarhvols ehf.

Ríkiskaup önnuðust að beiðni Lindarhvols ehf. milligöngu um öflun tilboða frá fjármálafyrirtækjum til að selja skráðar eignir í umsýslu félagsins sjá nánar http://www.rikiskaup.is/utbod/utb/20359 og tilboða frá hugsanlegum ráðgjöfum í tengslum við sölumeðferð á Lyfju hf. sjá nánar http://www.rikiskaup.is/utbod/utb/20340.
Á grundvelli þeirra tilboða sem bárust hefur Lindarhvoll ehf. ráðið Landsbankann hf. til að veita ráðgjöf við sölu skráðra eigna í umsýslu félagsins og Virðingu hf. sem ráðgjafa í tengslum við sölumeðferð á Lyfju hf.
Í samræmi við reglur Lindarhvols ehf. um umsýslu, fullnustu og sölu eigna, þar sem fram kemur að sala og ráðstöfun skuli eiga sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli, þar sem gætt er gagnsæis og jafnræðis bjóðenda, er nú unnið að nánari útfærslu á söluferli fyrrnefndra eigna, sem kynnt verður nánar á næstu vikum. Við söluferli þeirra verður í samræmi við fyrrgreindar reglur lögð áhersla á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar.